Það er ekki furða að fólk spyrji sig að þessu miðað við hvað við heyrum þetta orð oft notað í útivist. Félagarnir að tala um nýjustu softshell buxurnar, auglýsingarnar dynja á okkur um nýjustu jakkana og staðalbúnaðslýsingar tala um softshell hitt og þetta. En hvað er þetta softshell eiginlega?
Softshell efnið er ekki eldra en ca 20 ára. Það var fyrst uppgötvað i kringum aldamótin og í framahaldi komu fyrstu flíkurnar í ljós. Softshell efnið er blanda af hlýju flísefni og vatnsfráhrindandi filmu. Blandað saman og útkoman er jakki eða buxur sem nýtast manni í margar tegundir útivistar. Oft á tíðum er talað um 90% flíkur, þar sem þær nýtast í 90% tilfella útivistar, vetur, sumar, vor og haust.
Eins og fyrr segir er softshell blanda af flís og skel. Flísefnið heldur á manni hita, það andar vel og hrindir raka frá líkamanum. Það er þó ekki eins þykkt og í flíspeysu og því oft mjög klæðilegt og aðsniðið. Softshell efnið er ekki vatnshelt eins og hörð skel en hrindir þó frá sér vatni. Sem dæmi yrði í lagi að vera í softshell jakka í léttum úða eða snjókomu en um leið og það fer að rigna meira eða snjóa er upplagt að fara í skeljakka í staðinn eða yfir. Það er nefnilega rétt, softshell er hægt að nota sem miðlag, yfir ullarbol og undir skel.
Softshell nýtist síðan mjög vel í vindi þar sem það heldur honum frá líkamanum og eru mörg softshell efni með sérstakri windbreaker filmu.
Það sama gildir um buxur sem gerðar eru úr softshell efni. Þær eru frábærar í flesta útivist en geta þó verið heldur hlýjar um mitt sumar (já, líka á Íslandi). Að vetri er frábært að klæða sig í lög, í ullarbuxur undir og softshell yfir og halda þannig hita á sér. Eins og með jakka hrinda þær frá sér vatni en eru þó ekki 100% vatnsheldar. Hér koma skel buxur því til sögunnar. Við hendum okkur í þær þegar það fer að helli rigna og úr þeim aftur þegar það hættir.
Til að draga þetta saman þá er softshell algjört undraefni í okkar huga og nýtist í svo margt, margar tegundir útivistar. Sett af softshell flíkum ætti að vera staðalbúnaður í fataskáp útivistarmannsins þar sem um 90% flíkur er að ræða…við komumst ansi langt á góðum softshell flíkum.
Af stað nú…allir að kynna sér softshell í næstu útivistarverslun!