Press "Enter" to skip to content

Hinn fullkomni jakki fyrir komandi vetrargöngur er…

…ekki til! Já, því miður, ykkur er nú velkomið að loka síðunni og halda áfram á leið ykkar um vefinn. En þið eruð líka velkomin að lesa áfram og fræðast um afhverju við viljum meina þetta.

Nú þegar það fer að kólna í veðri þarf að huga enn betur að klæðnaði til þess að geta haldið áfram að stunda útivistina. Við viljum að okkur líði vel á meðan á átökum stendur og verði ekki kalt. Hættan sem fylgir þessu er sú að við klæðum okkur of vel, þ.e.a.s. í öll lögin sem við eigum og jafnvel röðum þeim vitlaust upp. Það sem eftir stendur er of vel klæddur göngumaður, sveittur á göngu og kaldur í stoppum. Þetta er hættuleg blanda sem við viljum forðast.

Og hér komum við aftur að upphaflega svarinu okkar, það er ekki til hinn fullkomni jakki sem við getum bara bent á og allir hlaupa út og kaupa. Afhverju? Jú, vegna þess að við erum öll mis heit að eðlisfari og þurfum mismunandi eiginlega við öndun og hlýleika. Blanda af góðum jakka og góðum lögum undir er því algjörlega málið.

Okkar reynsla hefur sýnt að góður og léttur dún- eða primaloft jakki kemur manni ansi langt inn í veturinn, þennan fyrsta kulda sem er að herja á okkur. Okkur þykir gott að blanda honum við Merino ullarbol undir og halda þannig hitanum inni, rakanum úti og góðri hreyfigetu. Það má nefnilega ekki gleyma henni, það er svo óþægilegt að vera það vel klæddur að allar hreyfingar verða erfiðar og óþægilegar.

Þessi blanda af léttum dúnjakka og ullarbol (síðerma) undir hentar vel þegar það er þurrt í lofti og engin úrkoma. Ef þær aðstæður breytast og fer að rigna eða snjóa blautum og þungum snjó er alveg upplagt að henda yfir sig skeljakka og nota þannig dúnjakkan sem miðlag. Við bætum þá við lagi á okkur en förum ekki úr neinu. Ástæðan fyrir því að við viljum fara í skeljakka yfir dún, og gera það eins fljótt og hægt er eftir að úrkoma byrjar, er sú að þegar dúnninn blotnar missir hann eiginleika sína og heldur ekki lengur á okkur hita eins og hann ætti. Í framhaldi er hann mjög lengi að þorna og gerir það ekki að fullu fyrr en hann er búinn að hanga uppi lengi eða er settur í þurrkara.

Við mælum því með að kíkja í næstu útivistarverslun og skoða úrval af dún- og primaloft jökkum. Máta þá yfir létta peysu, með og án skeljar yfir og sjá hvað hentar best. Úrvalið er gríðarlega mikið og snýst þetta oft um snið, sídd og auðvitað lit…ekki gleyma honum, á fjöllum má nefnilega klæðast spennandi og skemmtilegum litum 🙂

 

Af stað nú…allir að velja sér hinn fullkomna jakka fyrir veturinn!

Ferðaáætlun 2025 er komin út!