Press "Enter" to skip to content

Mánudagshugvekjan – klæðum okkur eftir veðri

Október er genginn í garð með öllum sínum lægðum. Á þessum tíma verður sjáanleg minnkun á umferð um göngustigana og fjöllin ekki eins þétt setin og fyrir nokkrum vikum. En afhverju, hvers vegna flýjum við inn á þessum árstíma og látum tækjasali eða annað duga?

Það eru eflaust margar ástæður fyrir þessari breytingu, rútínan er hafin, ný líkamsræktarnámskeið að hefjast, markmiðum sumarsins hefur verið náð o.fl. o.fl. En eitt af því sem vegur þungt í þessu er veðrið, sólin lætur sjá sig í styttri tíma, kuldinn er að mæta og vindur og rigning er mun algengari sjón. Að sjálfsögðu eru þetta aðstæður sem erfiðara er að eiga við eða hvetja sjálfan sig til að fara út í. Við sýnum því fullan skilning. En veðrið þarf ekki að vera hindrun sem ekki er hægt að komast yfir!

Það sem mestu skiptir er að klæða sig alltaf eftir veðri, hvort sem farið er í lengri göngu upp á Esjuna eða styttri upp á Úlfarsfellið. Veður hefur áhrif á okkur, kuldi og bleyta í gegn getur skemmt alla upplifun af útiverunni og skilið eftir slæmar minningar sem hafa síðan áhrif á næsta skipti…og svona getur þetta gengið í hringi. Undirbúningur er því mikilvægur, skoðum veðurspá, tökum fötin okkar fram og röðum við skónna og höfum í huga hvort allt sé ekki með sem á að vera. Verður kalt? Þá eru ullarnærföt málið. Verður blautt eða hvasst? Þá er skelfatnaður málið. Verður komið myrkur? Þá má höfuðljósið alls ekki gleymast. Er ég með húfuna og vettlingana? Hvað með buffið til öryggis utan um hálsinn? Og svona fer maður yfir hlutina þangað til allt er klárt…og þegar það er klárt þá er ekkert til fyrirstöðu að fara út og njóta!

Við búum á Íslandi og því mátti viðbúast að það kæmu lægðir um þetta leyti, látum þær ekki stöðva okkur. Förum út, fyllum lungun af fersku lofti, tæmum hugan og höldum áfram að njóta eins og við gerðum í sumar.

Kynnið ykkur þennan pistil okkar um þrjú lög fatnaðar og hvernig á að nota þau, þar förum við dýpra yfir viðfangsefnið.

Af stað nú…allir út í haustið!

Comments are closed.