Press "Enter" to skip to content

Sunnudagshugvekjan – útivera

Útivist hefur verið að færast í aukana undanfarin ár, það er farið að vera kúl að stunda ýmsa útivist, þeim fjölbreyttari þeim betri. Við erum farin að þora að gera annað en að mæta í ræktina dag eftir dag og lyfta lóðum. Nú er þetta farið að snúast meira um að komast út sem oftast og prófa sem flest.

Framboðið hefur líka farið upp á við af því sem hægt er að gera, allt frá göngum til fjallahlaupa og hjólreiða. Hver og einn ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, eftir áhuga og erfiðleikastigi. Við þurfum oft að prófa okkur áfram áður en við finnum það sem hentar, hvar áhuginn liggur o.fl. Þessa stundina situr maður og horfir út um gluggan, á frábæra veðrið og er að plana hvað skal gera í dag…úti. Og svona eru eflaust dagarnir hjá fleirum. En afhverju erum við að þessu eiginlega, hvað er það nákvæmlega við útiveruna sem hrifur mann svona?

Það getur reynst jafnt auðvelt og það er erfitt að svara þessari spurningu. Svarið er nefnilega svo persónubundið, afhverju stundar hver og einn útivistina. En það sem flestir geta verið sammála um er að hún gerir manni gott, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt. Við höfum oftar en ekki heyrt fólk segja það að komast út í smá tíma jafnast á við einn sálfræðitíma, hugurinn fer á fullt og leysir mörg vandamál sem úti standa. Hvort sem þetta stenst eða ekki verður hver og einn að dæma um.

Líkamlega komumst við í betra form, okkur líður betur í eigin skinni og við verðum ánægðari með sjálf okkur. Auðvitað höfum við öll mismunandi markmið með útivistinni og það er mjög heilbrigt að setja sér eitt. Sum okkar vilja brenna kaloríum og missa kíló eða tvö, aðrir vilja ná hæðametrum eða vegalengdum og enn aðrir vilja bara komast x-sinnum í viku út og anda að sér fersku lofti. Við erum öll ólík og markmiðin eru í samræmi við það. En að setja sér markmið er alltaf gott og er það oft fyrsta skrefið í að komast út.

Hér á Íslandi erum við svo heppin að geta gengið að náttúrunni með auðveldum hætti, það tekur okkur stutta stund að komast í hreint og ferkst loft, fjölbreytt umhverfi og einhverja tegund af útivist. Það eru algjör forréttindi! Tökum stórborgirnar í kringum okkur sem dæmi, það sem íbúar þurfa að ferðast langar vegalengdir til að komast “út”. Þetta er ekki vandamál hjá okkur.

En aftur að útiverunni. Hún gerir okkur gott og á meðan við getum stundað hana óhrindrað ættum við að gera það, fara út og finna hvað okkur finnst gaman eða hentar. Munið bara að hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir, við þurfum ekki nýjasta og besta útbúnaðinn eða fara lengstu vegalengdir frá heimilinu okkar. Það er svo margt hægt að gera ódýrt og nálægt, við þurfum bara að finna hvað okkur hentar!

…en nóg af þessu, útiveran kallar og planið er klárt, ég ætla að hringa eitt stöðuvatn…af stað nú, allir út að njóta!

Comments are closed.