Press "Enter" to skip to content

Börn og útivera

Í nútíma samfélagi herjum við mikla baráttu við börnin okkar um athyglina. Sjónvarp, tölvuleikir, símar og fleira spila stóran þátt í baráttunni og verður hún oft hörð þegar kemur að því að fá barnið til að fara út að leika sér. Ein hugmynd sem oft er rædd í þessu samhengi er að semja við barnið og “verðleggja” t.d tölvuleikjatímann fyrir útiveru. 15 mín í tölvuleik fyrir 30 mín útiveru eða eitthvað í þá áttina. Auðvitað er það undir hverjum og einum komið að finna út rétta “verðlagið”. Það hefur verið sannað að útivera styrkir ofnæmiskerfið, eykur þol, bætir einbeitingu og dregur út streitu svo fátt eitt sé nefnt.

En ræðum kostin aðeins frekar!

Þegar barn er í náttúrunni upplifir það hömlunarlaust umhverfi sem virkjar öll skilningarvitin og ýtir undir vitsmunalega, tilfinningalega, félagslega og líkamlega þróun.

 

Vitsmunalegir kostir : Náttúran er opin og hvetjandi og börn upplifa hana í gegnum sjón, lykt, hljóð og áferð. Möguleikarnir eru endalausir og tækifærin til að skoða, upplifa, uppgötva og leysa vandamál eru á hverju strái. Barnið lærir á hlutina með því að framkvæma þá, stundum tekst það og stundum ekki og er það allt hluti af þroskaferlinu.

Tilfinningalegir kostir : Það getur verið frelsandi að vera úti í nátturinni og börn eru líklegri til að prófa nýja hluti við þessar aðstæður. Hvort sem það er að hreyfa sig, gefa frá sér hljóð eða önnur tjáningarform. Oft á tíðum er þetta frelsi ekki í boði innandyra og því er útiveran nauðsynleg. Útileikir fá börn til að hlaupa, hoppa, klifra, skríða og öskra  og eru þetta allt góðar leiðir til að fá útrás og draga í leiðinni úr spennu og kvíða. Mörg dæmi eru um það að útivera hafi róandi áhrif á börn og þau gleyma sér í t.d. að horfa upp í skýin eða kasta steinum ofan í poll og þannig skerpa á einbeitingu.

Félagslegir kostir : Þegar börn eru úti að leika þá eru þau líklegri til að kynnast nýjum og öðruvísi leikfélögum sem og að læra að deila, leysa vandamál og margt fleira. Börn að leik eru einnig líklegri til að finna upp á nýjum leikjum eða skapa nýjar leikreglur því umhverfið er meira frelsandi en að vera innan veggja heimilisins.

Líkamlegir kostir : Augljóslega eykur útivera hreyfingu og það skemmtilega er að þessi hreyfing kemur oft í formi leikja og því er hún fjölbreyttari og varir lengur. Allir þekkja kosti D-vítamíns fyrir ofnæmiskerfið og lungu full af súrefni getur ekki annað en gert líkamanum gott. Að leika sér utandyra fær börn til að prófa nýja hluti og reyna á þolmörkin sem hjálpar líkamlegum þroska

 

Að sjálfsögðu stiklum við hér á því allra stærsta, kostirnir eru mun fleiri en þetta og koma þeir í ljós þegar leikirnir hefjast! Af stað nú…allir út að leika!

Comments are closed.