Press "Enter" to skip to content

Hvernig á að stilla bakpoka?

Í framhaldi af færslunni okkar um pökkun í bakpoka þá kemur hér nýr fróðleikur, hvernig á að stilla þá svo gangan verði ljúf frá byrjun til enda. Rétt stilltur bakpoki er lykillinn að því að líða vel í bakinu á langri göngu, þegar borin er einhver þyngd í honum. Þetta þarf því ekki að vera erfitt né óþægilegt, hugum bara að stillingunum!

 

1, 2, 3 og svo 4

Að stilla bakpoka rétt er eins og að telja upp að fjórum…enda eru skrefin fjögur við að stilla hann rétt. Þetta er því hentugt! Áður en þú byrjar skaltu losa allar ólar vel frá og vinna þig svo að réttum stillingum.

Nr. 1 er að huga að mjaðmaólunum. Þær eiga að sitja beint á mjöðmunum, þétt við þær. Hérna mun 70%-80% þungans í bakpokanum liggja og því mikilvægt að ólarnar séu á réttum stað. Flestir bakpokar í dag eru með púðum sitthvoru megin sem fara yfir mjaðmirnar og gera þetta allt þægilegra.

Nr. 2 eru það axlarólarnar. Þær eru stilltar með því að draga lausu spottana niður, undir hendur og þannig draga bakpokan nær bakinu. Þetta er gert með einu, jöfnu handtaki, sitthvoru megin. Ólarnar eiga að vera þéttar en þó ekki það þéttar að þunginn liggi hér…enda er hann á mjöðmunum muniði. Hafið einnig í huga að þær skeri ekki undir hendur og séu óþægilegar. Ef svo er þá er um að gera að losa smá og prófa sig áfram.

Nr. 3 eru það burðarólarnar sitthvoru megin. Eins og með axlarólarnar þá eru þessar stilltar líka með einu, jöfnu handtaki. Hér viljum við fínstilla bakpokan nær bakinu okkar, drögum hann að og finnum þyngdina koma nær. Alls ekki gleyma þessum því.

Nr. 4 er það síðan brjóstólin en hún er stillt alltaf síðustu. Bakpokinn býr yfir smellu sem er smellt saman og er hún svo þrengd að og látin liggja beint á brjóstkassanum. Hér er þó mjög mikilvægt að stilla hana ekki of þétt enda er þetta aðeins fínstilling, hér á engin þyngd að liggja, ólin er aðeins gerð til að halda axlarólunum á sínum stað. Þessa ól er gott að hafa lausa þegar gengið er upp í halla, til að halda brjóstsvæðinu alveg opnu og öndunarveginum góðum. Ef hún er þrengt að gerir það okkur erfitt fyrir að draga djúpt andann þegar á því þarf að halda.

Eins og þið sjáið er það lítið mál að stilla bakpoka rétt, þannig að hann valdi engum óþægindum á löngum jafnt sem stuttum göngum. Til viðbótar við þessi skref er rétt að taka það fram að á langri göngu er eðlilegt að fínstilla allar ólar reglulega, til að viðhalda öllu á sínum stað.

Af stað…og nú með rétt stilltan bakpoka!

Comments are closed.