Press "Enter" to skip to content

Hvernig á að pakka í bakpoka?

Bakpoki sem rétt er raðað í er ljúft að bera, auðvelt og þægilegt. En að raða rétt í hann er ákveðin tækni sem auðvelt er að læra. Um leið og búið er að gera það einu sinni er það ekkert mál framvegis. Þetta er því allt spurning um æfingu.

Grunnreglan er sú að hafa þyngstu hlutina sem næst bakinu í pokanum. Það er gert til þess að hafa þyngdarpunktinn sem næst bakinu svo að bakpokinn halli ekki aftur fyrir og göngumaðurinn með. Ekki gleyma þessari.

Ég set neðst í pokann hluti sem ég þarf ekki að nálgast með hraði, t.d. auka fatnað. Bakpokinn minn býr yfir auka hólfi alveg neðst á pokanum sem tilheyrir ekki því stóra. Í það hólf set ég alltaf skelbuxur og jakka. Þá get ég farið í þau föt þegar byrjar að blása eða rigna. Ef ég er með fleiri en tvo vatnsbrúsa þá reyni ég að setja þá sitthvoru meginn í pokann svo að þyngdin dreifist jafnt. Í stóra hólfið fer einnig sjúkrataskan og annað þess háttar. Efst í stóra hólfið set ég oftast nestið mitt, stóra nestið, ekki snarlið eins og hnetur eða annað. Það hef ég í topphólfinu svo auðvelt er að grípa það. Innan á topphólfinu er ég með gps tæki, vasahníf o.fl.

Ef ég geng með svefnpoka/tjald og dýnu þá festi ég svefnpokann/tjaldið undir bakpokann með þar til gerðum lykkjum og set svo dýnuna utan á pokan sjálfan. Það er það eina sem ég set utan á bakpokann þar sem ég vil ekki að hann taki vind á sig eða að hlutir blotni í rigningu.

Smá trikk handa ykkur! Ég hef vanið mig á að setja allt sem á að vera saman í sér, litla poka, helst vatnshelda (en ekki nauðsynlega). Hér á ég við um hluti eins og t.d. nestið, það er allt í einum poka. Húfur, hanskar, lambúshetta o.fl., það er í einum poka. Sjúkrakittið er í einum poka. Rafdót eins og gps tæki og auka batterí, það fær sinn poka líka. Með þessu móti er ekkert mál að taka upp akkúrat það sem mann vantar án þess að róta í öllum pokanum og leita. Einnig kemur þetta sér vel í vindi, þá er maður ekki að taka allt upp og eiga í hættu á að láta hluti fjúka frá sér.

Eitt trikk í viðbót! Ef maður á ekki regnhlíf yfir pokann sinn er gott að setja svartan ruslapoka innan á hann, þannig mun farangurinn ekki blotna þó svo að rigni á bakpokann okkar.

 

Vonandi mun þetta nýtast ykkur þegar þið pakkið næst fyrir gönguna. Í framhaldi skulum við ræða um pokaval…

Comments are closed.