Press "Enter" to skip to content

Sokkar – hvaða máli skipta þeir?

Stutta svarið er, alveg heilum helling! Langa svarið kemur hér að neðan.

Það skiptir litlu máli hversu vel maður er undirbúinn fyrir göngu ef ekki er hugað að smáu atriðunum líka, svo sem sokkum. Ef á þeim er klikkað getur gangan orðið ansi erfið og hugsanlega þarf að snúa við vegna kvilla sem koma upp. Það sem getur gerst meðal annars er að við þreytumst fyrr í fótunum, svitnum of mikið, verður of kalt eða of heitt, fáum hælsæri o.fl. Það er því skondið að hugsa til þess að jafn lítið atriði og rangir sokkar geta haft eins mikil áhrif og raun ber vitni, eyðilagt ferðina og brotið niður jafnvel hörðustu göngugarpa.

Ef maður er ekki í réttum sokkum þá skipta skórnir, formið, fatnaðurinn og útbúnaðurinn litlu máli. Hægt og rólega finnum við fyrir óþægindum og verða þau meiri og meiri þangað til að það verður óbærilegt að stiga niður.

Eina leiðin til að finna út hvaða sokkar henta manni best er auðvitað að prófa sig áfram. Það er gott að leita ráða hjá sérfræðingum en á endanum snýst þetta um einstaklinginn og við erum jú jafn ólík eins og við erum mörg.

Hérna koma nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að því að velja sokka.

Hæð sokkana : fer eftir því hversu háir gönguskórnir eru. Því hærri sem þeir eru því hærri sokka þarftu. Þú vilt alls ekki lenda í því að skór og skinn nuddist saman, talandi nú ekki um þegar við bætum við svita eða bleytu. Háir sokkar hlýja oft betur en þeir lágu og því gott að hafa það í huga þegar valdir eru vetrarsokkar.

Efni sokkana : eru mismunandi og í mörgum tilfellum eru t.d. göngusokkar úr fleira en einu efni. Það er gert til að finna rétta jafnvægið milli þæginda, hita, endingar og hversu fljótt þeir þorna og hrinda frá sér raka. Algengustu efnin eru ull, pólýester, nælon, silki og spandex. Hlutföllin í efnunum eru svo mismunandi eftir því í hvað sokkarnir eru notaðir. Einnig er vert að hafa í huga að þróun í efnum hefur verið gífurleg í gegnum árin og erum við í dag að horfa upp á að efnin slitna síður. Hins vegar verða þau hörð eftir sem á líður og valda óþægindum, t.d. hælsæri. Skoðið því sokkana ykkar vel og ekki dæma þá einungis eftir því hvort það sé komið gat eða ekki heldur einnig mýkt við viðkomu.

Þykkt sokkana : fer eftir því í hvernig ferð er lagt upp í og auðvitað veðurfari og aðstæðum. Þeim þykkari sem sokkurinn er, því meiri vörn veitir hann en á sama tíma eykst hitastigið. Það er því mjög persónubundið hversu þykka sokka fólk velur.

Snið skokkana : skiptir miklu máli og ef sniðið er of stórt þá geta þeir nuddast við fæturnar og valdið blöðrum og öðrum kvillum. Ef sniðið er of þröngt þá kemur óþarfa þrýstingur með þar til gerðum óþægindum.  Skóstærð og sokkastærð fara ekki alltaf saman þar sem oft eru skór valdir númeri stærri en vanalega er notað. Það er því miklvægt að mæla stærðina á fætinum sjálfum. Það er góð byrjun að passa upp á að hællinn á sokknum passi vel að hælnum sjálfum.

Allt þetta hljómar kannski frekar augljóslega og er í raun og veru frekar einfalt þegar spáð er í hlutunum en sannleikurinn er sá að of margir klikka á þessu “litla” atriði sem rétt val á sokkum er. Munið bara, sokkarnir eru partur af heildarpakkanum í útbúnaði…skelin, buxurnar, peysan, skórnir…og einnig sokkarnir.

 

Af stað nú…allir að taka 5 mínútur í að skoða sokkaskúffuna sína og spekúlera!

Comments are closed.