Nepal – Grunnbúðir Everest 2024

From: 379.000 kr.

2024 dagsetningar:
– 13. október – 28. október

Category:

Description

Eins og hrafninn flýgur setjum við stefnuna á grunnbúðir Everest í Nepal! Framundan er ógleymanlegt ævintýri!

Að ganga upp Khumbu dalinn, upplifa menninguna og mannlífið og auðvitað öll háu fjöllin í kring er mögnuð upplifun og ferðalag sem seint gleymist. Rólega fikrum við okkur hærra og hærra þangað til að við náum grunnbúðum Everest, með öllu því magnaða útsýni sem þeim fylgir. Jökullinn, fjöllin, sólarupprásin…við fáum þetta allt beint í æð!

Ferðin okkar hefst í Kathmandu þar sem við eyðum einum degi áður en við fljúgum upp í fjöllin. Á leiðinni aftur til baka fáum við auka dag í Kathmandu sem við nýtum í skoðunarferðir og upplifun áður en flogið verður heim til Íslands. Ferðin er 16 dagar í heild sinni í Nepal og gera má ráð fyrir heilum degi fyrir og eftir ferð í ferðalag frá og til Íslands aftur.

Göngudagarnir eru mislangir (sjá dagskrá hér að neðan) og gengið er aðeins með dagpoka á milli staða. Farangurinn verður trússaður á jakuxum og burðarmönnum. Dagarnir eru settir upp með það að markmiði að njóta en ekki þjóta.

Ferð þessi er fyrir þá sem þyrstir í ný ævintýri og vilja skoða þetta magnaða svæði sem oft er kennt við Everest í daglegu tali. Þó svo að göngudagarnir séu ekki langir né bakpokinn þungur þá munu þeir taka í sökum hæðar sem fer hækkandi með hverjum degi. Þátttakendur þurfa að vera í líkamlegu formi, ganga á fjöll reglulega fyrir brottför og æfa sig þannig. Besta æfingin er jú að ganga á fjöll. Ath að gangan er ekki tæknileg og gengið er eftir stigum mest alla leiðina fram að grunnbúðadegi.

 

Dagskráin er sem hér segir:

Dagur 1 (13. október)
Komið til Kathmandu og gist á glæsilegu hóteli Barahi.

Dagur 2 (14. október)
Kathmandu dagur sem verður nýttur í helstu skoðunarferðir borgarinnar…eftir morgunmat á hótelinu að sjálfsögðu. Við förum í Pashupatinath musterið og skoðum síðan Boudhanath stupa og endum daginn á Patan Durbar torginu. Þessi dagur verður vel nýttur og munum við njóta leiðsagnar heimafólks sem ekur okkur um og segir frá.
Morgunmatur.

Dagur 3 (15. október)
Við tökum daginn snemma og keyrum til Ramechhap til að ná flugi til til Lukla (2.800m) snemma þar sem gangan okkar hefst formlega. Gengið NIÐUR til Phakding (2.650m). 4klst – 8km – 300m lækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 4 (16. október)
Göngum í dag til höfuðstaðs Sjerpa, Namche (3.400m). Alvöru dagur með miklu útsýni og mörgum brekkum. 6klst – 8km – 800m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 5 (17. október)
Í dag göngum við upp í Everest View Hotel (3.800m) þar sem við fáum okkur te og sjáum Everest í fyrsta sinn. Dagurinn er rólegur og komum við aftur niður til Namche. Kannski gefst okkur tími til að grípa einn háfjalla latte og bakkelsi. 5klst – 6km – 400m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 6 (18. október)
Þá kveðjum við Namche og höldum til Tyangboche (3.860m). Göngum í hlíðum fjallanna og í gegnum skóglendi. Þetta verður brattur dagur en útsýnið mikið að kvöldi til. 6klst – 11km – 700m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 7 (19. október)
Við kveðjum Tyangboche og höldum áleiðis til Dingboche (4.300m) þar sem við ætlum að eyða tveimur dögum. Hér er franskt bakarí! 6klst – 11km – 700m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 8 (20. október)
Hvíldardagur og við nýtum hann vel til að aðlagast hæðinni og förum í góða göngu. Te, matur og almenn hvíld.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 9 (21. október)
Höldum til Lobuche (4.900m) og nú fer landslagið að breytast, fjöllinn fara að gnæfa almennilega yfir okkur og tindarnir að blasa við. 6klst – 9km – 600m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 10 (22. október)
Þessi fer í minningarbækurnar okkar. Í dag göngum við frá Lobuche yfir í bæinn Gorak Shep (5.100m) þar sem við borðum hádegismat og höldum áfram inn í grunnbúðir Everest! (5.300m) Þetta verður langur dagur en þreytan gleymist fljótt þegar útsýnið og takmarkið loks blasir við manni. Gerið vasaklútana klára. 8klst – 11km – 400m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 11 (23. október)
Við tökum daginn snemma og förum í göngu upp á Kala Patthar (5.600m) og horfum á sólina koma upp yfir Everest. Þetta er mögnuð stund. Eftir allar myndatökurnar komum við aftur niður í Gorak Shep, borðum seinni morgunmat og höldum niður hægt og bítandi til Pheriche. 7klst – 16km
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 12 (24. október)
Með lungun full af súrefni höldum við niður áfram, til Namche í dag. Dagarnir lengjast en hæðin lækkar hratt. 7klst – 20km
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 13 (25. október)
Við kveðjum Namche og höldum niður til Lukla. Það er magnað hvað brekkurnar eru mun auðveldari á leiðinni niður. Loksins heit sturta! 7klst – 16km
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 14 (26. október)
Ferðadagur í dag, við fljúgum frá Lukla til Ramechhap snemma morguns og keyrum síðan til Kathmandu. Heit sturta, drykkur á barnum og slökun. Kannski ein pizza líka…
Morgunmatur.

Dagur 15 (27. október)
Frjáls dagur í Kathmandu sem hægt verður að nýta í skoðunarferð eða verslunarferð. Um kvöldið munum við sameinast í kvöldmat með nepölskum leiðsögumönnum okkar og skála fyrir góðri ferð.
Morgunmatur og kvöldmatur.

Dagur 16 (28. október)
Kveðjum borgina og höldum heim á leið til Íslands.
Morgunmatur.

 

Innifalið:
– Íslensk og Nepölsk fararstjórn
– Gisting skv. ferðaplani í tveggja manna herbergjum
– Ferðir til og frá flugvöllum
– Innanlandsflug til og frá Ramechhap
– Skoðunardagur með leiðsögn í Kathmandu
– Gisting og matur á göngu að nepölskum sið
– Sameiginlegur kvöldmatur á degi 15 í Kathmandu
– Trúss á farangri á milli gististaða á göngu
– Þjóðgarðsleyfi
– Undirbúningsfundur + 2 göngur á Íslandi

Ekki innifalið:
– Flug til og frá Kathmandu
– Vegabréfsáritun (Visa) í Nepal (50 USD)
– Þjórfé á göngu fyrir burðarmenn og fararstjóra
– Tryggingar við ferðina*
– Matur og drykkir í Kathmandu sem ekki eru tilgreindir sérstaklega
– Annar matur og drykkir á göngu sem ekki tilgreindir eru í dagskrá, s.s. gosdrykkir, vatn og áfengir drykkir
– Snarl og millimál á göngu
– Önnur þjónusta á göngu, s.s. WiFi, sturta, þvottur o.fl.

Nánari upplýsingar eru veittar með tölvupósti á netfanginu info@afstad.com eða í síma okkar 790 2800.

Lágmarksfjöldi í ferðina er 8 manns og hámarksfjöldi er 12.

 

Verð : 379.000kr.

Greitt er 50.000kr. í staðfestingargjald við skráningu og telst sæti vera frátekið þá
Greitt er 329.000kr. í lokagreiðslu eigi síðar en sex vikum fyrir brottför. Hægt er að skipta greiðslum upp í allt að 6 skipti.
Sendir eru reikningar á þátttakendur.
Nánari upplýsingar um útbúnað, fyrirkomulag og dagskrá eru sendar með staðfestingarpósti.

Ferðaskilmálar

*Ferðatrygging, forfallatrygging, slysa- og sjúkdómatrygging ásamt neyðartryggingu Global Rescue. Hægt er að fá þessar tryggingar hjá sínu tryggingafélagi en mikilvægt er að tilgreina hvert ferðinni sé heitið.

Vertu í bandi – spurðu – komdu með!