Description
Í þessari göngu munum við klukka þrjá glæsilega tinda sem allir eru sýnilegir frá Reykjavík. Því mun ferðin án vafa rifjast reglulega upp fyrir okkur í framtíðinni þegar við horfum í norðurátt! Tindarnir okkar eru Heiðarhorn (1.053m), Skarðshorn (1.039m) og Skarðshyrna (945m).
Við hefjum leika á bílastæði við bæinn Efra-Skarð í Hvalfjarðarsveit. Þaðan göngum við upp Skarðsdal með stefnu á norðurbrún Skarðsheiðar milli Heiðarhorns og Skarðshorns. Hér opnast stórfenglegt útsýni yfir Borgarfjörðinn en það mun þó eingöngu batna þegar líður á daginn.
Við eltum brúnina til austurs þar til komið er á fyrsta tind dagsins, Skarðshorn. Eftir stutt stopp þar höldum við til baka í átt að Heiðarhorni, hæsta punkti Skarðsheiðar. Þaðan er gríðarlega víðsýnt í allar áttir enda er tindurinn sá hæsti á afar stóru svæði, í raun einn sá hæsti á SV-horni landsins.
Eftir gott stopp á Heiðarhorni röltum við svo þægilega og nokkuð slétta leið út á Skarðshyrnu, síðasta áfangastað dagsins. Skarðshyrna, eða öllu heldur klettaveggurinn sunnan hennar, er í margra huga táknmynd Skarðsheiðarinnar þegar horft er í átt til hennar frá höfuðborgarsvæðinu. Ekki amalegt að eiga minningu um kaffibolla á toppnum!
Frá Skarðshyrnu röltum við svo sömu leið til baka niður Skarðsdal.
Gangan er um 16km með heildarhækkun í kringum 1.180 metra. Gert er ráð fyrir að hún taki okkur rúmar 7 klst.
Hópurinn hittist á upphafsstað göngu við Efra-Skarð kl. 9
Nánari upplýsingar eru veittar með tölvupósti á netfanginu info@afstad.com eða í síma okkar 790 2800.
Innifalið:
-Leiðsögn
Verð :8.900kr
Sendur er reikningur á þátttakendur og telst sæti frátekið þegar hann er greiddur.
Nánari upplýsingar um útbúnað, fyrirkomulag og dagskrá eru sendar með staðfestingarpósti.
Vertu í bandi – spurðu – komdu með!