Press "Enter" to skip to content

Hvað vil ég afreka á árinu?

Janúar markar ákveðið upphaf hjá okkur. Nýtt ár. Ný og fersk byrjun. Núllpunktur. Fyrsti kaflinn í bókinni. Þennan tíma er tilvalið að nota til þess að fara yfir drauma okkar og væntingar. Setjast niður með blað og blýant og ákveða hvað við viljum afreka á árinu. 

Hvað vil ég gera og hvert vil ég fara? Hvaða markmið ætla ég að setja mér?

Afrekin eða markmiðin geta verið af ýmsum toga og öllum stærðargráðum en þau sem við ætlum að minnast á í dag eru tengd uppáhalds iðju okkar – útivist og þá aðallega fjallgöngum. Við ætlum að koma með nokkrar hugmyndir af útivistartengdum markmiðum fyrir ykkur að stefna að.

En fyrst – aðeins um markmið.

Þegar við setjum okkur markmið er mikilvægt að vera raunsæ – gæta hófs og hafa markmiðin raunhæf. Byrja smátt og bæta í. Þá eru líkurnar strax meiri á að við náum markmiðinu.  Við erum til dæmis hrifin af 30 daga markmiðum. Þau eru viðráðanleg og verðlaunin koma nokkuð hratt. Eitt X í dagatalið á dag kemur skapinu í lag. 

Mundu að markmiðin miðast við þig en ekki félaga þinn. Hvar þú stendur í dag, hvert þú stefnir og hverju þig langar á áokra. Hvað langar þig að gera og hvernig ætlar þú að fara að því?  Við þurfum nefnilega líka að hugsa hvernig ætlum við að ná markmiðinu. Ef markmiðið er stórt þá brjóta það niður í minni vörður sem við klukkum á leiðinni að lokamarkinu. Og mundu að fagna litlum sigrum á leiðinni. Það er hvatningin sem heldur okkur við efnið. 

Markmiðin þurfa líka að vera skemmtileg. Veita okkur gleði og tilhlökkun. Þau mega ekki verða kvöð. Mikilvægt er að hafa í huga að ef við náum ekki markmiðinu þá gerist ekkert annað en að við aðlögum það og höldum áfram. Lífið gerist. Sýnum okkur mildi og verum sveigjanleg í að breyta og bæta út frá stöðunni hverju sinni. Eins og vitur maður sagði – það skiptir ekki máli hversu oft þú fellur heldur hversu oft þú stendur upp aftur.

Þó að við setjum okkur markmið út frá okkur persónulega er alltaf gaman að hafa félaga með í för. Geta gefið high five á toppnum eða hafa einhvern sem drífur mann af stað þegar sófinn og Netflix kalla nafnið okkar hátt og skýrt. 

Skuldbinding er annað sem kemur okkur af stað og heldur okkur við efnið. Að skuldbinda sig til þess að mæta á ákveðnum tíma á ákveðinn stað. Um allt land er að finna fjölmarga og fjölbreytta hreyfihópa sem við hvetjum ykkur til þess að skrá ykkur í. Við hjá Af Stað bjóðum til að mynda upp á nokkur fjallgöngunámskeið þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. 

En þá að útivistartengdu markmiðunum sem við minntumst á:

Hugmyndir að markmiðum: 

  • Útivera á dag í 30 daga. Öll útivera er góð fyrir líkama og sál. Göngutúr í hverfinu, synda nokkrar ferðir í lauginni, hlaupatúr, fjallganga, gönguskíði – þetta telur allt. 
  • Eitt fjall á dag í 30 daga.
  • Eitt fjall á viku. Það gera 52 fjöll á árinu! 
  • Ganga á 100 fjöll á árinu. 
  • Hlaupa x marga kílómetra á viku. Hér skiptir máli að byrja rólega, byggja upp þrek og þol. 
  • Ganga 500km, 700km, 900km eða þaðan af meira á árinu. 
Fleiri nætur í tjaldi?
  • Ganga Laugaveginn í júlí. 
  • Fara Fimmvörðuháls í ágúst. 
  • Gista x margar nætur í tjaldi á árinu. 
  • Fara í vetrarútilegu fyrir páska. 
  • Fara 12 ferðir upp að Steini á Esjunni.

Af stað nú. Það er ekki eftir neinu að bíða. Nýtt ár – ný markmið!